Um félagið

Íslensk-ameríska félagið sem stofnað var 1940, er eins og sambærileg félög á Norðurlöndum systurfélag American Scandinavian Foundation. Félögin starfa að því að efla samstarf þjóða sinna og Bandaríkjanna í mennta- og menningarmálum í samvinnu við American Scandinavian Foundation. Eftir stofnun félagsins á styrjaldarárunum hófust námsdvalir Íslendinga á háskólum og öðrum menntastofnunum í Bandaríkjunum sem ætíð hafa haft mikla þýðingu.

Við fráfall Thor Thors, sendiherra, sem hafði verið einn af stofnendum félagsins, var ákveðið að efla átakið í þágu menntamanna með stofnun sjóðs til minningar um hann. Umsjá og starf við Thor Thors sjóðinn hefur síðan verið eitt af aðalverkefnum félagsins.

Íslensk-ameríska félagið var á sínum tíma mjög öflugur aðili í samkvæmis- og skemmtanalífi Reykvíkinga. Haldnar voru fjölmennar hátíðir með dansleikjum á Thanksgiving Day og að öðru tilefni á vetrum og vori. Slík starfsemi hefur nú lagst af hjá þessu félagi og öðrum sambærilegum í höfuðborginni og því þurft að finna nýjan vettvang starfs eða framlag við þjóðfélagið.